Talnaskilningur

Talnaskilningur örvast í daglegu starfi barnanna. Tölustafir eru hafðir aðgengilegir börnunum og eru víða hengdir upp. Á öllum deildunum fá börnin að leika sér með lausa tölustafi sem eru hafðir misstórir og miðast það við þroska barnanna. Spiluð eru teningaspil af ýmsum gerðum og farið í talnaleiki. Yngstu börnin telja líkamshluta á meðan þau elstu eru í búðarleik með verðmerktar vörur, talnagrind og peninga. Oft er boðið upp á ávexti í eftirmat og eru þeir tímar gjarnan notaðir til að örva börnin í talningu. Börnin eru þá spurð hve marga bita þau vilji og eru dæmi þess að hálft epli hafi verið skorið í 97 bita og þá töldu allir saman. Yngstu börnin biðja oftast um einn, tvo eða þrjá bita og sýna það þá með fingrunum en þau eldri velja oftast 10-20 bita.